Áritun óháðs endurskoðanda

Til stjórnar og hluthafa Símans hf.

Áritun um endurskoðun
samstæðuársreiknings

Álit

Við höfum endurskoðað samstæðuársreikning Símans hf. („samstæðan“) fyrir árið 2016 sem hefur að geyma rekstrarreikning og yfirlit um heildarafkomu, efnahagsreikning, eiginfjáryfirlit, sjóðstreymisyfirlit, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar.

Það er álit okkar að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu samstæðunnar 31. desember 2016 og afkomu hennar og breytingu á handbæru fé á árinu 2016, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og viðbótarkröfur sem koma fram í íslenskum lögum og reglum um ársreikninga skráðra félaga.

Grundvöllur álits

Við endurskoðuðum í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt stöðlunum er lýst frekar í kaflanum Ábyrgð endurskoðanda á endurskoðun samstæðuársreikningsins í árituninni. Við erum óháð félögum í samstæðunni í samræmi við siðareglur fyrir endurskoðendur á Íslandi og höfum uppfyllt aðrar siðferðisskyldur okkar í samræmi við þær reglur. Við teljum að við höfum aflað nægilegra og viðeigandi endurskoðunargagna til að byggja álit okkar á.

Lykilþættir endurskoðunar

Lykilþættir endurskoðunar eru þeir þættir, sem samkvæmt faglegu mati okkar, höfðu mest vægi við endurskoðun samstæðuársreikningsins. Við gefum ekki sérstakt álit á einstökum lykilþáttum en tókum á þeim við endurskoðun á samstæðuársreikningnum í heild og við ákvörðun um álit okkar á honum.

Lykilþáttur Viðbrögð í endurskoðuninni
Mat viðskiptavildar

Eins og fram kemur í skýringu nr. 15 nam bókfært verð viðskiptavildar 31,4 ma.kr. í árslok 2016 og er hún stærsta einstaka eign félagsins. Viðskiptavild hefur verið deilt út á þær sjóðskapandi einingar innan samstæðunnar sem hún tilheyrir. Árlega ber að framkvæma virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild og öðrum eignum sem ekki rýrna við notkun og hafa óskilgreindan líftíma.

Mat á verðmæti viðskiptavildar er einn af lykilþáttum í endurskoðun á ársreikningi samstæðunnar vegna þess hversu hátt hlutfall viðskiptavild er af heildareignum hennar og um er að ræða eign sem háð er mati stjórnenda. Mat á verðmæti viðskiptavildar byggir á væntingum stjórnenda um núvirt framtíðarsjóðstreymi sjóðskapandi eininga.

Endurskoðunaraðgerðir okkar miðuðu að því að leggja mat á þær forsendur sem stjórnendur nota við útreikning á verðmæti viðskiptavildar í hverri sjóðskapandi einingu. Í þeirri vinnu fólst m.a.:

 • Reiknilíkan stjórnenda var yfirfarið og lagt mat á virkni þess.
 • Forsendur rekstrar- og sjóðstreymisáætlana til næstu fimm ára voru yfirfarnar. Í þeirri vinnu fólst að lagt var mat á forsendur um tekjur, rekstrarkostnað, framlegð og fjárfestingar fyrir spátímabilið.
 • Lagt var mat á forsendur fyrir áætluðum framtíðarvexti að loknu spátímabilinu.
 • Forsendur fyrir vaxtakjörum einstakra sjóðskapandi eininga voru yfirfarnar og metnar. Ávöxtunarkrafa í útreikningunum byggir á áhættulausum vöxtum að viðbættu álagi sem tekur mið af eðli rekstrar og samsetningu fjármögnunar í hverri einingu.
Tekjuskráning

Tekjuskráningarkerfi samstæðunnar eru flókin og skrá mikinn fjölda færslna í mörgum kerfum. Helstu tekjur samstæðunnar eru samtengingar- og reikitekjur, mánaðargjöld, stofngjöld, línuleigur, auglýsingatekjur í sjónvarpi auk sölu á vörum og þjónustu. Gerð er grein fyrir tekjuskráningu samstæðunnar í skýringu 33.5.

Skráning tekna er einn af lykilþáttum í endurskoðun á ársreikningi samstæðunnar vegna mikils fjölda af færslum og flókinna skráninga í tekjuskráningarkerfi þar sem framboð og verð á vörum og þjónustu tekur reglulegum breytingum.

Endurskoðunaraðgerðir okkar miðuðu að því að leggja mat á hönnun, innleiðingu og virkni á sjálfvirkum eftirlitsþáttum með tekjuskráningu auk viðeigandi gagnaendurskoðunaraðgerða með það að markmiði að sannreyna nákvæmni í tekjuskráningu félagsins og að tekjur séu skráðar á viðeigandi tímabil. Í þeirri vinnu fólst m.a.:

 • Lagt var mat á þau tölvu- og upplýsingakerfi sem notuð eru við tekjuskráningu og flæði á milli tekjukerfa og fjárhagskerfis. Einnig voru framkvæmdar prófanir á þeim sjálfvirku eftirlitsþáttum sem eru til staðar í ferlinu.
 • Skoðun á aðgangsheimildum starfsmanna í tekjukerfi, heimildum til verðákvarðana og breytinga í kerfinu.
 • Skoðun á eftirlitsþáttum við reikningagerð sem eru hannaðir til að tryggja réttmæti og nákvæmni útsendra reikninga.
 • Athuganir á yfirferð stjórnenda á frávikagreiningum, afstemmingum milli kerfa og eftirlitsaðgerðum í innheimtu.
 • Greiningar á leitni í tekjum niður á mánuði með samanburði við áætlanir og fyrri tímabil þar sem frávik eru greind, byggð á þekkingu okkar á markaðnum. Ef frávik voru umfram ásættanleg mörk var leitað skýringa á þeim.
 • Greiningartæki notað við skoðun á sölufærslum í þeim tilgangi að greina óvenjulegar færslur.

Aðrar upplýsingar í ársskýrslu

Stjórn og forstjóri bera ábyrgð á öðrum upplýsingum. Aðrar upplýsingar eru ársskýrsla að undanskildum samstæðuársreikningi og áritun okkar á hann. Álit okkar á samstæðuársreikningnum nær ekki til annarra upplýsinga og við staðfestum þær ekki á neinn hátt.

Í tengslum við endurskoðun okkar á samstæðuársreikningnum ber okkur að lesa aðrar upplýsingar í ársskýrslu þegar þær liggja fyrir og meta hvort þær séu í verulegu ósamræmi við samstæðuársreikninginn eða aðra þekkingu sem við höfum aflað okkur við endurskoðunina eða virðast verulega rangar. Ef við, á grundvelli vinnu okkar, ályktum að verulegar rangfærslur séu í öðrum upplýsingum ber okkur að skýra frá því. Ársskýrslan liggur ekki fyrir við áritun okkar á samstæðuársreikninginn en við munum fá hana afhenta til yfirferðar áður en hún verður gefin út.

Ábyrgð stjórnar og forstjóra á samstæðuársreikningnum

Stjórn og forstjóri eru ábyrg fyrir gerð og glöggri framsetningu samstæðuársreikningsins í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og fyrir því innra eftirliti sem þau telja nauðsynlegt til að gera þeim kleift að setja fram samstæðuársreikning sem er án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.

Við gerð samstæðuársreikningsins ber stjórn og forstjóra að leggja mat á rekstarhæfi samstæðunnar og upplýsa, eftir því sem við á, um þætti er varða rekstrarhæfi og miða grundvöll reikningsskilanna við áframhaldandi rekstrarhæfi, nema þau ætli annað hvort að leysa samstæðuna upp eða hætta starfsemi hennar, eða hafa engan annan raunhæfan kost en að gera það.

Ábyrgð endurskoðanda á endurskoðun samstæðuársreikningsins

Markmið okkar eru að öðlast hæfilega vissu um hvort samstæðuársreikningurinn í heild sé án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka, og að gefa út áritun endurskoðanda sem inniheldur álit okkar. Í hæfilegri vissu felst mikil vissa en ekki trygging fyrir því að endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla muni alltaf leiða í ljós verulega annmarka ef þeir eru fyrir hendi. Annmarkar geta komið fram vegna sviksemi eða mistaka og eru taldir verulegir ef þeir einir og sér eða samanlagt gætu haft áhrif á efnahagslegar ákvarðanir sem notendur samstæðuársreikningsins taka á grundvelli hans.

Við endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla beitum við ávallt faglegri dómgreind og viðhöfum faglega gagnrýni. Að auki:

 • Greinum við og metum hættu á verulegri skekkju í samstæðuársreikningnum, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka, skipuleggjum og framkvæmum endurskoðunaraðgerðir til að bregðast við þeirri hættu og öflum endurskoðunargagna sem eru nægjanleg og viðeigandi til að byggja álit okkar á. Hættan á að uppgötva ekki verulega skekkju vegna sviksemi er meiri en að uppgötva ekki skekkju vegna mistaka, þar sem sviksemi getur falið í sér samsæri, fölsun, að einhverju sé viljandi sleppt, villandi framsetningu eða að farið sé framhjá innra eftirliti.
 • Öflum við skilnings á innra eftirliti, sem varðar endurskoðunina, til að skipuleggja viðeigandi endurskoðunaraðgerðir, en ekki til að veita álit á virkni innra eftirlits samstæðunnar.
 • Metum við hvort reikningsskilaaðferðir og reikningshaldslegt mat stjórnenda og tengdar skýringar séu viðeigandi.
 • Ályktum við um hvort notkun stjórnar og forstjóra á forsendu reikningsskilanna um rekstrarhæfi sé viðeigandi og metum, á grundvelli endurskoðunarinnar, hvort aðstæður séu til staðar sem valdið gætu verulegum vafa um rekstrarhæfi samstæðunnar. Ef við teljum að verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi ber okkur, í áritun okkar, að vekja sérstaka athygli á viðeigandi skýringum samstæðuársreikningsins eða, ef slíkar skýringar eru ófullnægjandi, að víkja frá fyrirvaralausri áritun. Niðurstaða okkar byggir á endurskoðunargögnum sem aflað er fram að dagsetningu áritunar okkar. Samt sem áður geta atburðir eða aðstæður í framtíðinni gert samstæðuna órekstrarhæfa.
 • Metum við framsetningu, uppbyggingu og innihald samstæðuársreikningsins í heild, að meðtöldum skýringum, og hvort samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af undirliggjandi viðskiptum og atburðum.
 • Öflum nægilegra og viðeigandi endurskoðunargagna varðandi fjárhagslegar upplýsingar eininga innan samstæðunnar til að geta gefið álit á samstæðuársreikningnum. Við erum ábyrg fyrir skipulagi, eftirliti og framkvæmd endurskoðunar samstæðunnar og berum óskipta ábyrgð á áritun okkar.

Við upplýsum stjórn og endurskoðunarnefnd meðal annars um áætlað umfang og tímasetningar endurskoðunarinnar og veruleg atriði sem upp kunna að koma í endurskoðun okkar, þar á meðal verulega annmarka á innra eftirliti.

Við lýsum því einnig yfir við stjórn og endurskoðunarnefnd að við höfum uppfyllt skyldur siðareglna um óhæði og upplýsum um tengsl eða önnur atriði sem gætu mögulega talist hafa áhrif á óhæði okkar og þegar við á, til hvaða varnaraðgerða við höfum gripið.

Af þeim atriðum sem við höfum upplýst stjórn og endurskoðunarnefnd um, leggjum við mat á hvaða þættir höfðu mesta þýðingu við endurskoðun samstæðuársreikningsins og eru því lykilþættir endurskoðunarinnar. Við lýsum þessum þáttum í áritun okkar nema lög og reglur útiloki að upplýst sé um þá eða, við einstakar mjög sjaldgæfar kringumstæður, þegar við metum að ekki skuli upplýsa um lykilþátt þar sem neikvæðar afleiðingar þess eru taldar vega þyngra en almennir hagsmunir af birtingu slíkra upplýsinga.

Staðfesting vegna annarra ákvæða laga

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 104 gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga staðfestum við samkvæmt okkar bestu vitund að í skýrslu stjórnar sem fylgir þessum samstæðuársreikningi eru veittar þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.

Alexander G. Eðvardsson og Árni Claessen, endurskoðendur, bera ábyrgð á endurskoðun ársreikningsins og áritun þessari.

Reykjavík, 16. febrúar 2017

KPMG ehf.

Ársreikningur

Áfram