Skýrsla og yfirlýsing

stjórnar og forstjóra

Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning Símans hf. og dótturfélaga hans, samanber skýringu 16, fyrir árið 2016.

Rekstur ársins 2016

Heildartekjur samstæðunnar á árinu voru 29.572 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi samanborið við 30.407 m.kr. á árinu 2015. Hagnaður var af rekstri samstæðunnar sem nam 2.755 m.kr. samanborið við hagnað að fjárhæð 2.875 m.kr. á árinu 2015. Eignir samstæðunnar námu 63.979 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Eigið fé nam 34.260 m.kr. og var eiginfjárhlutfallið 53,5%. Félagið greiddi á árinu arð að fjárhæð 575 m.kr. til hluthafa sinna. Að öðru leyti vísast til ársreiknings um breytingar á eigin fé samstæðunnar.

Í samræmi við endurkaupaáætlun félagsins, sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 10. mars 2016, voru keypt eigin bréf að nafnvirði 243 m.kr. á meðalgenginu 3,09. Kaupum samkvæmt endurkaupaáætluninni lauk þann 1. júní 2016. Í samræmi við kaupréttarsamninga voru hlutir að nafnverði 37 m.kr. seldir til starfsmanna á genginu 2,5181 og á félagið nú 2,13% af hlutafé félagsins.

Í byrjun mars keypti félagið allt hlutafé í Farsímagreiðslum ehf. en fyrir átti félagið 55,5% hlut. Í lok júní seldi félagið tvö af dótturfélögum sínum, Staka automation ehf. og Talentu ehf. Söluhagnaður af viðskiptunum nam 189 m.kr. sem tekjufærður er í rekstrarreikningi félagsins. Áhrif sölunnar á efnahagsreikning félagsins eru óveruleg. Félagið seldi allan hlut sinn í Trackwell ehf. sem var skráð sem hlutdeildarfélag og nam söluhagnaður 100 m.kr. sem er tekjufærður í rekstrarreikningi félagsins.

Hlutafé í árslok skiptist á 1.473 hluthafa en þeir voru 2.783 í ársbyrjun. 10 stærstu hluthafar félagsins eru:

Nafnverð hlutafjár í m.kr. Eignarhlutur
Lífeyrisjóður verslunarmanna 1.377 14,27%
Gildi - Lífeyrissjóður 889 9,21%
Lífeyrissjóður starfsm. ríkisins A-deild 718 7,44%
Stapi lífeyrissjóður 518 5,37%
L1088 ehf. 488 5,06%
Arion banki hf. 478 4,95%
Stefnir - ÍS 15 358 3,71%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 358 3,71%
Lífeyrissj.starfsm.rík. B-deild 261 2,70%
A.C.S safnreikningur I 243 2,52%
Tíu stærstu hluthafar samtals 5.688 58,94%

Stjórn félagsins leggur til að 10% af hagnaði ársins, 275 m.kr. verði greiddur út sem arður á árinu 2017 vegna ársins 2016. Þá leggur stjórn félagsins einnig til að farið verði í framkvæmd endurkaupaáætlunar á hlutabréfum í félaginu fyrir fjárhæð sem nemur allt að 40% af hagnaði félagsins á árinu 2016.

Skráð hlutafé félagsins nam í árslok 9.650 m.kr., en félagið á eigin hluti að nafnverði 205,8 m.kr. Hlutaféð er í einum flokki, sem skráður er í Kauphöll Íslands. Allir hlutir njóta sömu réttinda.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn Símans hf. leggur áherslu á að viðhalda góðum stjórnarháttum og að fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint sem og verksvið gagnvart forstjóra. Félagið er með skráð verðbréf í Kauphöll Íslands hf. og ber því að fylgja leiðbeiningum um stjórnarhætti samkvæmt reglum Kauphallarinnar sem hægt er að nálgast á vef hennar.

Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna hér stjórnarháttaryfirlýsing sem er fylgiskjal í PDF.

Sækja PDF

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Í júní samþykkti Alþingi töluverðar breytingar á lögum um ársreikninga. Lagabreytingarnar gilda með afturvirkum hætti frá og með 1. janúar 2016. Meðal lagabreytinganna er krafa um að í yfirliti með skýrslu stjórna tiltekinna félaga skuli fylgja upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál.

Jafnframt skal gera grein fyrir stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingar- og mútumálum. Þá skal yfirlitið hafa að geyma stutta lýsingu á viðskiptalíkani félagsins, ófjárhagslega lykilmælikvarða og fleira. Hafi félagið ekki stefnu í tengslum við eitt eða fleiri mál samkvæmt lagagreininni skal gera skýra og rökstudda grein fyrir því í yfirlitinu. Félagið telst eining tengd almannahagsmunum og fellur undir fyrrnefndar kröfur um upplýsingagjöf sem koma til vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins.

Félagið hefur frá setningu laganna unnið að innleiðingu ákvæða þeirra og á heimasíðu félagsins, www.siminn.is, er að finna samfélagsstefnu félagsins sem tekur á flestum ákvæðum laganna. Á árinu 2017 mun félagið innleiða þetta ákvæði að fullu og munu fyrrgreindar upplýsingar verða birtar í næsta ársreikningi félagsins.

Yfirlýsing stjórnar og forstjóra

Samkvæmt bestu vitneskju stjórnar og forstjóra er ársreikningur samstæðunnar í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þei hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu. Er það álit stjórnar og forstjóra að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstrarafkomu samstæðunnar á árinu 2016, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hennar 31. desember 2016 og breytingu á handbæru fé á árinu 2016. Jafnframt er það álit stjórnar og forstjóra að samstæðuársreikningurinn gefi glöggt yfirlit um þróun og árangur í rekstri samstæðunnar og stöðu hennar og lýsi helstu áhættuþáttum og óvissu sem samstæðan býr við.

Stjórn og forstjóri Símans hf. hafa í dag fjallað um samstæðuársreikning félagsins fyrir árið 2016 og staðfesta hann með undirritun sinni.

Reykjavík, 16. febrúar 2017

Stjórn

Sigríður Hrólfsdóttir, formaður

Heiðrún Jónsdóttir, varaformaður

Birgir S. Bjarnason

Bertrand B. Kan

Stefán Árni Auðólfsson

Forstjóri

Orri Hauksson

Áritun endurskoðanda

Áfram